Færsluflokkur: Bloggar

Frumkvöðlar miðla af reynslu sinni á miðvikudag 26.maí

Fulltrúar fyrirtækjanna Clara, Knitting Iceland, Gogogic, Nox Medical, Marorka, Bláa Lónið, Transmit, Remake Electric og Studio Bility miðla af reynslu sinni af stuðningi við nýsköpun á kynningarfundi miðvikudaginn 26. maí en markmið fundarins er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Einnig munu hátt í tuttugu aðilar  kynna þjónustu sína við frumkvöðla og fyrirtæki í básum. Það eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, Samtök iðnaðarins og Útflutningsráð ásamt Hátækni- og sprotavettvangi sem standa að fundinum í tilefni af evrópsku fyrirtækjavikunni SME Week 2010 sem haldin er hátíðleg um alla Evrópu dagana 25. maí - 1. júní.

Á fundinum verða tvær málstofur, annars vegar fyrir einstaklinga með nýjar viðskiptahugmyndir og fyrirtæki í startholunum og hins vegar fyrir þroskaðri sprotafyrirtæki og fyrirtæki í nýsköpun. Nánari upplýsingar og skráning

SME Week 2010 


Atvinnusköpun og umhverfismál í Mosfellsbæ

Grein eftir undirritaðan sem birtist í Mosfellingi 26.feb. síðastliðinn:

________________________________

Heilsutengd ferðaþjónusta er ung og upprennandi atvinnugrein á Íslandi.  Þjónusta við erlenda sjúklinga og aðstandendur þeirra getur verið gríðarlega atvinnu- og verðmætaskapandi og getur gætt samfélag okkar skemmtilegum anda. Dæmi um heilsutengda þjónustu sem hagkvæmt getur verið að bjóða upp á eru til dæmis magahjáveituaðgerðir með tilheyrandi lífsstílstengdri offitumeðferð. 

Á Reykjalundi er rekin sérhæfð deild fyrir offitusjúklinga og væri snjallræði að útvíkka þá starfsemi fyrir bæði innlenda og erlenda skjólstæðinga. Reykjalundur er eins og Mosfellingar vita gríðarlega öflugur vinnustaður og vagga endurhæfingarstarfsemi á Íslandi. Það er þess vegna rökrétt að efla og útvíkka þá starfsemi sem fyrir er á Reykjalundi og stofna hugsanlega til samstarfs við aðila sem ætla sér stóra hluti í þjónustu við erlenda sjúklinga.  Þetta á sér í lagi við endurhæfingu í tengslum við liðskiptiaðgerðir á mjöðmum og hnjám sem til dæmis eru fyrirhugaðar í einkareknu sjúkrahúsi ”Iceland Health” á Ásbrú hjá Kadeco (Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar).  Ýmislegt annað kemur til greina svo sem fyrirhugað stórverkefni ”Primacare” um byggingu sjúkrahúss, hótels og tengdrar þjónustu á bökkum Köldukvíslar.  Þetta verkefni er því miður frekar skammt á veg komið og leitað er fjármagns eins og í mörg önnur uppbyggileg verkefni á Íslandi.  Þegar bæjaryfirvöld leituðu leiða til að styðja ” Primacare” verkefnið þá voru búnir til fjármunir ”á pappírunum” með því að stækka byggingarreit sem Ístak hefur til ráðstöfunar á fyrirhuguðu byggingarsvæði á Tungumelum.  Þarna var því miður farið óvarlega með því að fara innfyrir hverfisverndarmörk við Köldukvísl.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bæjaryfirvöld leyfa sér að gera þetta á kjörtímabilinu og verðum við að gæta þess að vinna ekki gegn langtímahagsmunum Mosfellsbæjar sem eru m.a. hrein og óspillt náttúra.  ------------

Náttúran er meðal annars það sem gerir Mosfellsbæ að fýsilegum kosti fyrir heilsutengda ferðaþjónustu.  Við þurfum hlúa að henni á öllum sviðum t.d. með viðeigandi umgengni við vatnsverndarsvæði svo takast megi að sjá íbúum fyrir nægilegu köldu og heitu vatni innan bæjarmarkanna.  Stór hluti kalda vatnsins okkar kemur frá Reykjavík og er hyggilegt að Mosfellsbær verði sjálfum sér nógur um vatn í framtíðinni.Staðardagskrá 21 og gildi Mosfellsbæjar; jákvæðni, virðing, framsækni og umhyggja verða að fara saman með heildarhagsmunum en eru ekki einungis eitthvað til að hampa á tyllidögum!Undirritaður hefur hvatt til að einnig verði leitað leiða til að ýta úr vör atvinnuskapandi verkefnum í smærri stíl en að ofan greinir og styður heilshugar stofnun Heilsufélags Mosfellsbæjar.  Jón Pálsson formaður Aftureldingar og Sævar Kristinsson rekstrarráðgjafi hjá Netspor hafa á undanförnum mánuðum unnið ötullega að því að skapa sameiginlega vettvang fyrir heilsutengda starfsemi í Mosfellsbæ.  Þróunar- og ferðamálanefnd hefur ásamt starfsmönnum Mosfellsbæjar samþykkt drög að stofnsamþykkt Heilsufélagsins og er stefnt að því að það komist á laggirnar fljótlega.  Ég hvet alla áhugasama atvinnurekendur og Mosfellinga sem eiga hagsmuna að gæta í ferða- eða heilsutengdri þjónustu að taka þátt í stofnun og mótun Heilsufélagsins. 

Undirritaður hefur bent á það á fundi þróunar- og ferðamálanefndar að ekki sé þénugt að stofna sérstakt félag í hvert skipti sem fýsilegt verkefni rekur á fjörurnar. Ég vil að Mosfellsbær stofni almennt atvinnuþróunarfélag sem hafi það hlutverk að sameina krafta ólíkra hagsmunaaðila, vera þróunar- og nýsköpunarverkefnum hlíf og stökkpallur út í atvinnulífið en ekki eiginlegt rekstarfélag því Bæjarútgerð er úrelt rekstrarform.

------------------------------

Snorri Hreggviðsson


Heilsuklasi í Mosfellsbæ

Hvet alla áhugasama Mosfellinga og nærsveitamenn til að taka þátt í kynningarfundi Heilsuklasa í Mosfellsbæ 4.mars kl.20 í  Listasal Mosfellsbæjar í Kjarnanum. 

sjá nánar á http://mos.is/Baerinnminn/HeilsuklasiiMosfellsbae/ 


Mosfellsbær er sveit að mínu skapi!

 

Markmið okkar þurfa að vera skýr og sýnileg, áfangar raunhæfir og mælanlegir. 

Helstu áherslu- og baráttumál mín eru: 

-                     Atvinnumál

Ø      Heilsutengd ferðaþjónusta verði stærsta atvinnugrein í Mosfellsbæ 2014

Ø      Meirihluti garðyrkju í Mosfellsbæ verði vistvæn 2013

Ø      Stofnað verði almennt atvinnuþróunarfélag í Mosfellsbæ 2010

Ø      Fleiri sæki atvinnu til Mosfellsbæjar en úr honum 2014

 -                     Íbúalýðræði

Ø      Árangursrík íbúaþing haldin ár hvert

Ø      Hverfasamtök virkjuð fyrir árslok 2010

 

-                     Umhverfis- og samgöngumál

Ø      Staðardagskrá 21 virki bæjarbúa til verka 2011

Ø      Visthæfar samgöngur í Mosfellsbæ verði raunverulegar:

§         Göngu- og hjólreiðastígar meðfram helstu akbrautum 2012

§         Vesturlandsvegur verði yfirbyggður að hluta milli Langatanga og Álafossvegar fyrir 2014

Ø      Ævintýragarður kláraður í áföngum fram til 2014

 

 

 

 

         Skoðun þín skiptir máli! 
Komdu sjónarmiðum þínum á framfæri við mig svo taka megi tillit til þeirra við rekstur og stjórn Mosfellsbæjar. 

Sendu mér orðsendingu snorrihre@yahoo.com


Mosfellsbær er sveit að mínu skapi.

Hér hef ég búið ásamt fjölskyldu minni í rúm 16 ár og tekið þátt í mörgu skemmtilegu sem þetta frábæra samfélag hefur upp á að bjóða.  Í Mosfellsbæ hefur verið gaman og gott að vera, hvort sem það hafa verið fjallgöngur, sund, hjólreiðar, söngur með Reykjalundarkórnum, golf á Hlíðarvelli, badminton eða útreiðar.

Vinna mín í þróunar- og ferðamálanefnd fyrir Mosfellinga á vegum Framsóknarflokksins er mér mjög hugleikin.  Mig langar að hagnýta reynslu mína og þekkingu af atvinnurekstri til framfara og atvinnusköpunar með áherslu á heilsutengda starfsemi, ferðaþjónustu, vistvæna garðyrkju- og matvælaframleiðslu.  Sameiginlega getum við Mosfellingar stuðlað að bættu samfélagi með sjálfbærum áherslum Staðardagskrár 21 með fjölskylduna í öndvegi. 

Vinna þarf skipulega að uppbyggingu Álafosskvosarinnar og varðveita sérkenni hennar, snyrta svæðið, gagna betur frá tengingum við umhverfið með göngu- og hjólreiðastígagerð, efna til fleiri menningarviðburða og efla þjónustu við ferðamenn.  Dapurlegt er að horfa upp á starfsmenn og sjúklinga Reykjalundar ganga Reykjalundarveginn við vægast sagt hættulegar aðstæður þar sem ekki er að finna neina stíga meðfram honum.  Hér verður að gera bragarbót á og koma í veg fyrir slys.  Hestamenn hafa árum saman beðið eftir reiðvegatengingu frá Varmárbökkum upp að Hafravatni en þessu verkefni er því miður ekki lokið.  Þeir eru tilneyddir að fara um umferðargötur svo sem Reykjaveginn með tilheyrandi hættu og ónæði.  Þessu verkefni verður að ljúka sem fyrst.

Mér finnst mikilvægt að bæjarbúar taki virkan þátt í að móta samfélagið og vil stuðla að auknu íbúalýðræði t.d. með því að efla þátttöku íbúa á alvöru íbúaþingum.  Núverandi bæjarstjórnarmeirihluta hefur mistekist að virkja Mosfellinga til verka eins og glöggt hefur mátt sjá merki með lítilli þátttöku á "svokölluðum" íbúaþingum sem haldin hafa verið í stjórnartíð Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna.

Félagsstörf eru mér ofarlega í huga og var ég einn stofnenda Körfuknattleiksdeildar Aftureldingar, sat í stjórn Skíðadeildar Fram, hef starfað í æskulýðs- og ritnefnd Hestamannafélagsins Harðar og hef verið formaður Badmintondeildar Aftureldingar.  Nauðsynlegt er að skapa betri aðstæður í Mosfellsbæ fyrir aldraða, til hvers kyns félagsstarfa, íþrótta- og útivistar. 

Ég er 45 ára, vélaverkfræðingur að mennt og starfa sem framkvæmdastjóri tækni- og þróunarsviðs nýsköpunarfyrirtækisins Remake Electric.  Er kvæntur Olgu Björku Guðmundsdóttur hjúkrunarstjóra Reykjalundi og eigum við saman tvær dætur, Hörpu og Heiðdísi.  

Ég hef gaman af lífinu og vil láta gott af mér leiða Mosfellingum til heilla.

Snorri Hreggviðsson


Heilbrigðismál – Nýsköpun – Ferðamál

Oft var þörf en nú er nauðsyn á að styðja við atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ og auka framboð atvinnutækifæra.  Í stað þess að styrkja og efla starf fyrrverandi Atvinnu- og ferðamálanefndar ákvað núverandi bæjarstjórnarmeirihluta að dreifa kröftunum með því að slíta í sundur atvinnumál annars vegar og þróunarmál ásamt nýsköpun hins vegar með stofnun Þróunar- og ferðamálanefndar og færa atvinnumál til Bæjarráðs.  Það dylst engum að ferðamál eru atvinnumál og óeðlilegt að skilja þau frá öðrum atvinnumálum.  Nauðsynlegt er að efla atvinnuþróunarmálin og sameina málaflokkinn aftur undir merkjum einnar nefndar.  

Í Mosfellsbæ er að finna ýmis spennandi tækifæri á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar en því miður hefur núverandi bæjarstjórnarmeirihluta mistekist að stemma stigu við atvinnuleysi og efla atvinnuþróun og nýsköpun. 

Töluverðir fjármunir hafa verið settir í einkarekin nýsköpunarsetur undir merkjum V6 sprotahúss og Frumkvöðlaseturs Mosfellsbæjar.  Frumkvöðlasetur Mosfellsbæjar hefur náð ágætis fótfestu en því miður láðist bæjarstjórnarmeirihlutanum að tryggja það að eðlilega væri staðið að málum við stofnun og rekstur V6.  Ekki var stofnað formlegt félag um reksturinn, rekstraráætlanir ekki gerðar og því miður hætti V6 starfsemi í desember síðastliðnum.  Nauðsynlegt er að fara vel með almannafé og standa að atvinnuþróunarmálum með ábyrgum hætti á tímum atvinnuleysis og fjárskorts. 

Undirritaður situr í Þróunar- og ferðamálanefnd fyrir Framsóknarflokkinn og benti nefndarmönnum í byrjun sumars á mikilvægi þess að styðja við ferðaþjónustu í Mosfellsbæ.  Þetta mætti t.d. gera með bættri miðlun upplýsinga til ferðamanna s.s. með endurútgáfu bæjarkorts í samstarfi við og með yfirliti yfir alla helstu ferðaþjónustuaðila ásamt opnun upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Álafosskvosinni.  Á núgildandi korti er ekki að finna merkingar fyrir tjaldstæði eða aðra gistiþjónustu og einnig vantar staðsetningarmerkingar á helstu verslunum og veitingastöðum.  Því miður vita fæstir ferðamenn að helsta upplýsingamiðstöð ferðamála er staðsett í Bókasafni Mosfellsbæjar.  Á fundi nefndarinnar snemma sumars 2009 benti undirritaður á að merkingar vantaði vegna miðlunar upplýsinga til ferðamanna, t.d. mætti setja I-skilti utan á Kjarnann og merkja tjaldstæði á umferðarskilti við hringtorgið við Þingvallaveg vegna tjaldstæða sem er að finna í Mosfellsdal.  Í lok sumars hafði því miður enn ekkert verið gert í þessum málum og eina tjaldstæðið (ómerkt) í bænum að finna á flötinni ið Hlégarð þar sem ekki var hreinlætisaðstaða eða annað sem nauðsynlegt er á slíkum stöðum.

 

Mikil atvinnuþróunartækifæri er að finna í Mosfellsbæ t.d. á sviði garðyrkju, ferða- og heilbrigðisþjónustu að ógleymdum öflugum þjónustu-, plast- og ullariðnaði. Spennandi verkefni Prima Care um fyrirhugaða byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ er dæmi um það sem vel hefur verið gert á sviði atvinnuþróunarmála en það er sýnd veiði en ekki gefin þar sem fjármögnun á svo risavöxnu verkefni er óviss og stutt á veg komin.

 

Betur má ef duga skal og þarf að huga að smærri verkefnum sem standa okkur nær í tíma og rúmi. 

 

Snorri Hreggviðsson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband