Kjósum fólk og málefni framtíðarinnar!

Kæri kjósandi.

Vandaðu valið og veldu þitt fólk og þín málefni frekar en flokka og fyrirgreiðslupólitík.  Sveitarstjórnarmál eru hagsmunamál nærsamfélagsins og eiga ekki að líða fyrir landsmálapólitík.

Helstu baráttumál mín eru eftirfarandi:

Atvinnu-, ferða- og þróunarmál:

  • Farið verði strax í sumar í atvinnuskapandi aðgerðir á vegum Mosfellsbæjar eins og sjá má í nýjustu bloggfærslu minni hér neðar. 
  • Stutt verði við Heilsuklasann t.d. með ráðgjöf, aðstöðu og fjárframlögum.
  • Aukin verði aðstoð við frumkvöðla í samstarfi við frumkvöðlasetur, bæði einkarekin og opinber.
  • Atvinnutengd málefni verði færð frá bæjarráði til þróunar- og ferðamálanefndar.
  • Ráðinn verði atvinnumálafulltrúi sem starfi með fyrirtækjum og frumkvöðlum að atvinnutengdri uppbyggingu.
  • Mosfellsbær verið sjálfsagður áningarstaður ferðamanna með auknu samstarfi allra ferðaþjónustuaðila. Meiri kynning verði á ferðatengdri starfsemi í Mosfellsbæ, gerð verði tjald- og húsbílastæði ofl. í Ævintýragarði, Álafosskvos snyrt og endurbætt og fjölgað ferðatengdum viðburðum eins og Í túninu heima, 7 tinda hlaupinu, Heilsudögum í Mosfellsbæ ofl.
  • Nýsköpunar- og frumkvöðlasamkeppni fari fram í Mosfellsbæ strax í lok september. 

Íþróttir og tómstundir fyrir alla í Mosfellsbæ.

Innan íþrótta- og tómstundafélaga í Mosfellsbæ er unnið frábært og óeigingjarnt starf foreldra, þjálfara, stjórnenda og starfsmanna.

  • Áfram ber að bjóða íbúum frístundaávísanir og kanna möguleika á að hækka þær í takt við kostnaðarþróun á hverjum tíma.
  • Leggja skal áherslu á samráð við íþrótta- og tómstundafélög um rekstur og uppbyggingu íþrótta- og tómstundastarfs ásamt viðeigandi aðstöðu 
  • Tryggja þarf að grundvöllur innra starfs félaganna haldist blómlegt og láta það ganga fyrir dýrum fjárfestingum í mannvirkjum.
  • Forgangsraða þarf í samráði við forsvarsmenn íþrótta- og tómstundafélaga ásamt því að virkja félagsmenn þeirra til þátttöku í sjálfboðavinnu við framkvæmdir eins og kostur er.
  • Gera þarf raunhæfa kostnaðar- og fjármögnunaráætlun fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir á næstu 4 árum og gæta þess að reisa Mosfellingum ekki hurðarás um öxl.
  • Dæmi um fyrirliggjandi verkefni (ekki loforðalisti) eru;
    • bygging anddyris, þjónustu- og félagsaðstöðu Aftureldingar að Varmá
    • bygging menningarhúss sem þjónað geti leikfélagi, kórum, tónlistarfólki, kirkju og hvers kyns samkomuhaldi.
      bygging félagsaðstöðu Golfklúbbsins Kjalar
    • endurbætur lýsingar í íþróttasölum fyrir blak, badminton ofl.
    • gerð fimleikagryfju að Varmá
    • endurbætur frjálsíþróttaaðstöðu á Varmárvelli
    • gerð reiðstíga sem auka umferðaröryggi og bæta tengingar við Hafravatn og Hólmsheiði

Umhverfismál.

  • Gerum göngu- og hjólreiðar að raunhæfum samgöngukosti í Mosfellsbæ með fjölgun og bættri merkingu stíga.
  • Snyrtum nýbyggingasvæði, útrýmum slysagildrum og göngum frá óbyggðum lóðum þannig að sómi sé af.
  • Hugum að öflun neysluvatns og varðveislu vatnsverndarsvæða innan Mosfellsbæjar.
  • Fylgjum áherslum Staðardagskrár 21 í hvívetna.
  • Eyðum lyktarmengun frá Álfsnesi t.d. með athugun á virkjun alls hauggass til raforkuframleiðslu fyrir Mosfellinga.  Það á að vera skilyrði fyrir áframhaldandi starfsemi Sorpu í Álfsnesi.
  • Stöðvum ólöglegan akstur vélhjóla á götum og gangstígum í samstarfi við MotoMos með bættir aðstöðu og vitundarvakningu.
  • Verndum útivistarsvæði fyrir ágangi vélknúinna farartækja með hindrunum ásamt aukinni fræðslu og forvarnarstarfsemi.

Íbúalýðræði verði virkjað í Mosfellsbæ strax.

  • Stofnum hverfasamtök þar sem þau vantar og eflum þau sem fyrir eru
  • Sköpum leið til að Mosfellingar geti látið skoðun sína í ljós á íbúagáttinni
  • Kjósum um stærri málefni ef 25% íbúa óska þess
  • Höldum öflug alvöru íbúaþing einu sinni á ári með þátttöku margra Mosfellinga

Með bestu óskum um ánægjulegt sumar.

Snorri Hreggviðsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæll

sem kjósandi í Mosó og ekki hefur gert upp sinn hug væri fróðlegt að vita þetta: Hvað áttu nákvæmlega við með því að seigja:"stutt verður við heilsuklasann t.d. með ráðgjöf, aðstöðu og fjárframlögum." Ætlarðu að fara að ausa fjármunum skattborgarana í einhverja áhættufjárfestingar? Í annan stað væri gaman að vita hvort ekki sé tímabært að koma til móts við reiðhjólafólk með því að gera alminnilega hjólaleið færa milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar? Síðan ert þú að tala um að byggja menningarhús. Í mínum huga er Mosó svefnbær og það væri algjör sóun á fjármagni að ætla að reisa einhvert "monument" yfir menningarstarfssemi. Er ekki til nóg af húsum undir slíkt?

takk fyrir.

Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 13:08

2 Smámynd: Snorri Hreggviðsson

Sæll Haraldur,

þakka þér uppbyggilega gagnrýni.

Heilsuklasinn er opið samstarf allra áhugamanna og félaga í Mosfellsbæ sem vilja vinna að heilsutengdri þjónustu hér í bæ. Þú ert örugglega velkominn í þann hóp ef þú hefur hagsmuna að gæta. Fyrirhugað sjúkrahús Prima Care er allt annað  verkefni. Austur á fé skattborgara er ofsögum sagt en eins og við vitum öll þarf að eyða fé til að afla þess.

Varðandi hjólreiðastíga þá eru þeir sérstakt áhuga og baráttumál mitt enda hjóla ég mikið sjálfur.  Styð heilshugar allar heilbrigðar hugmyndir sem stuðlað geta að því að gera hjólreiðar virkari samgöngumáta.  Vil t.d. setja upp góðar hjólreiðageymslur við alla skóla, íþróttamannvirki og á miðbæjarsvæði.  Það er ekki boðlegt að geta ekki geymt hjólið sitt án þess að eiga á hættu að því sé stolið.  Svo er spurning um að virkja betur hjólreiðar og strætisvagna því oft á tíðum væri gott að taka vagninn hluta leiðarinnar :-)

Menningarhúsið er ekki mín hugmynd og hef ég ekki talað sérstaklega fyrir því heldur vil ég að það ásamt öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum verði skoðuð sem ein heild og forgangsraðað í samráði við íbúana.  Skuldir hafa tvöfaldast á tveimur árum og ég vil ekki halda áfram á sömu braut eins og núverandi meirihluti boðar.  Ekki stendur til að ráðast í óráðsíu eða óþarfa minnisvarða! 

Kosningakveðja,

Snorri

Snorri Hreggviðsson, 29.5.2010 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband