19.2.2010 | 01:30
Heilbrigðismál – Nýsköpun – Ferðamál
Oft var þörf en nú er nauðsyn á að styðja við atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ og auka framboð atvinnutækifæra. Í stað þess að styrkja og efla starf fyrrverandi Atvinnu- og ferðamálanefndar ákvað núverandi bæjarstjórnarmeirihluta að dreifa kröftunum með því að slíta í sundur atvinnumál annars vegar og þróunarmál ásamt nýsköpun hins vegar með stofnun Þróunar- og ferðamálanefndar og færa atvinnumál til Bæjarráðs. Það dylst engum að ferðamál eru atvinnumál og óeðlilegt að skilja þau frá öðrum atvinnumálum. Nauðsynlegt er að efla atvinnuþróunarmálin og sameina málaflokkinn aftur undir merkjum einnar nefndar.
Í Mosfellsbæ er að finna ýmis spennandi tækifæri á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar en því miður hefur núverandi bæjarstjórnarmeirihluta mistekist að stemma stigu við atvinnuleysi og efla atvinnuþróun og nýsköpun.
Töluverðir fjármunir hafa verið settir í einkarekin nýsköpunarsetur undir merkjum V6 sprotahúss og Frumkvöðlaseturs Mosfellsbæjar. Frumkvöðlasetur Mosfellsbæjar hefur náð ágætis fótfestu en því miður láðist bæjarstjórnarmeirihlutanum að tryggja það að eðlilega væri staðið að málum við stofnun og rekstur V6. Ekki var stofnað formlegt félag um reksturinn, rekstraráætlanir ekki gerðar og því miður hætti V6 starfsemi í desember síðastliðnum. Nauðsynlegt er að fara vel með almannafé og standa að atvinnuþróunarmálum með ábyrgum hætti á tímum atvinnuleysis og fjárskorts.
Undirritaður situr í Þróunar- og ferðamálanefnd fyrir Framsóknarflokkinn og benti nefndarmönnum í byrjun sumars á mikilvægi þess að styðja við ferðaþjónustu í Mosfellsbæ. Þetta mætti t.d. gera með bættri miðlun upplýsinga til ferðamanna s.s. með endurútgáfu bæjarkorts í samstarfi við og með yfirliti yfir alla helstu ferðaþjónustuaðila ásamt opnun upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Álafosskvosinni. Á núgildandi korti er ekki að finna merkingar fyrir tjaldstæði eða aðra gistiþjónustu og einnig vantar staðsetningarmerkingar á helstu verslunum og veitingastöðum. Því miður vita fæstir ferðamenn að helsta upplýsingamiðstöð ferðamála er staðsett í Bókasafni Mosfellsbæjar. Á fundi nefndarinnar snemma sumars 2009 benti undirritaður á að merkingar vantaði vegna miðlunar upplýsinga til ferðamanna, t.d. mætti setja I-skilti utan á Kjarnann og merkja tjaldstæði á umferðarskilti við hringtorgið við Þingvallaveg vegna tjaldstæða sem er að finna í Mosfellsdal. Í lok sumars hafði því miður enn ekkert verið gert í þessum málum og eina tjaldstæðið (ómerkt) í bænum að finna á flötinni ið Hlégarð þar sem ekki var hreinlætisaðstaða eða annað sem nauðsynlegt er á slíkum stöðum.
Mikil atvinnuþróunartækifæri er að finna í Mosfellsbæ t.d. á sviði garðyrkju, ferða- og heilbrigðisþjónustu að ógleymdum öflugum þjónustu-, plast- og ullariðnaði. Spennandi verkefni Prima Care um fyrirhugaða byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ er dæmi um það sem vel hefur verið gert á sviði atvinnuþróunarmála en það er sýnd veiði en ekki gefin þar sem fjármögnun á svo risavöxnu verkefni er óviss og stutt á veg komin.
Betur má ef duga skal og þarf að huga að smærri verkefnum sem standa okkur nær í tíma og rúmi.
Snorri Hreggviðsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.