19.2.2010 | 01:55
Mosfellsbær er sveit að mínu skapi.
Hér hef ég búið ásamt fjölskyldu minni í rúm 16 ár og tekið þátt í mörgu skemmtilegu sem þetta frábæra samfélag hefur upp á að bjóða. Í Mosfellsbæ hefur verið gaman og gott að vera, hvort sem það hafa verið fjallgöngur, sund, hjólreiðar, söngur með Reykjalundarkórnum, golf á Hlíðarvelli, badminton eða útreiðar.
Vinna mín í þróunar- og ferðamálanefnd fyrir Mosfellinga á vegum Framsóknarflokksins er mér mjög hugleikin. Mig langar að hagnýta reynslu mína og þekkingu af atvinnurekstri til framfara og atvinnusköpunar með áherslu á heilsutengda starfsemi, ferðaþjónustu, vistvæna garðyrkju- og matvælaframleiðslu. Sameiginlega getum við Mosfellingar stuðlað að bættu samfélagi með sjálfbærum áherslum Staðardagskrár 21 með fjölskylduna í öndvegi.
Vinna þarf skipulega að uppbyggingu Álafosskvosarinnar og varðveita sérkenni hennar, snyrta svæðið, gagna betur frá tengingum við umhverfið með göngu- og hjólreiðastígagerð, efna til fleiri menningarviðburða og efla þjónustu við ferðamenn. Dapurlegt er að horfa upp á starfsmenn og sjúklinga Reykjalundar ganga Reykjalundarveginn við vægast sagt hættulegar aðstæður þar sem ekki er að finna neina stíga meðfram honum. Hér verður að gera bragarbót á og koma í veg fyrir slys. Hestamenn hafa árum saman beðið eftir reiðvegatengingu frá Varmárbökkum upp að Hafravatni en þessu verkefni er því miður ekki lokið. Þeir eru tilneyddir að fara um umferðargötur svo sem Reykjaveginn með tilheyrandi hættu og ónæði. Þessu verkefni verður að ljúka sem fyrst.
Mér finnst mikilvægt að bæjarbúar taki virkan þátt í að móta samfélagið og vil stuðla að auknu íbúalýðræði t.d. með því að efla þátttöku íbúa á alvöru íbúaþingum. Núverandi bæjarstjórnarmeirihluta hefur mistekist að virkja Mosfellinga til verka eins og glöggt hefur mátt sjá merki með lítilli þátttöku á "svokölluðum" íbúaþingum sem haldin hafa verið í stjórnartíð Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna.
Félagsstörf eru mér ofarlega í huga og var ég einn stofnenda Körfuknattleiksdeildar Aftureldingar, sat í stjórn Skíðadeildar Fram, hef starfað í æskulýðs- og ritnefnd Hestamannafélagsins Harðar og hef verið formaður Badmintondeildar Aftureldingar. Nauðsynlegt er að skapa betri aðstæður í Mosfellsbæ fyrir aldraða, til hvers kyns félagsstarfa, íþrótta- og útivistar.
Ég er 45 ára, vélaverkfræðingur að mennt og starfa sem framkvæmdastjóri tækni- og þróunarsviðs nýsköpunarfyrirtækisins Remake Electric. Er kvæntur Olgu Björku Guðmundsdóttur hjúkrunarstjóra Reykjalundi og eigum við saman tvær dætur, Hörpu og Heiðdísi.
Ég hef gaman af lífinu og vil láta gott af mér leiða Mosfellingum til heilla.
Snorri Hreggviðsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.