5.3.2010 | 22:55
Atvinnusköpun og umhverfismál í Mosfellsbæ
Grein eftir undirritaðan sem birtist í Mosfellingi 26.feb. síðastliðinn:
________________________________
Heilsutengd ferðaþjónusta er ung og upprennandi atvinnugrein á Íslandi. Þjónusta við erlenda sjúklinga og aðstandendur þeirra getur verið gríðarlega atvinnu- og verðmætaskapandi og getur gætt samfélag okkar skemmtilegum anda. Dæmi um heilsutengda þjónustu sem hagkvæmt getur verið að bjóða upp á eru til dæmis magahjáveituaðgerðir með tilheyrandi lífsstílstengdri offitumeðferð.
Á Reykjalundi er rekin sérhæfð deild fyrir offitusjúklinga og væri snjallræði að útvíkka þá starfsemi fyrir bæði innlenda og erlenda skjólstæðinga. Reykjalundur er eins og Mosfellingar vita gríðarlega öflugur vinnustaður og vagga endurhæfingarstarfsemi á Íslandi. Það er þess vegna rökrétt að efla og útvíkka þá starfsemi sem fyrir er á Reykjalundi og stofna hugsanlega til samstarfs við aðila sem ætla sér stóra hluti í þjónustu við erlenda sjúklinga. Þetta á sér í lagi við endurhæfingu í tengslum við liðskiptiaðgerðir á mjöðmum og hnjám sem til dæmis eru fyrirhugaðar í einkareknu sjúkrahúsi Iceland Health á Ásbrú hjá Kadeco (Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar). Ýmislegt annað kemur til greina svo sem fyrirhugað stórverkefni Primacare um byggingu sjúkrahúss, hótels og tengdrar þjónustu á bökkum Köldukvíslar. Þetta verkefni er því miður frekar skammt á veg komið og leitað er fjármagns eins og í mörg önnur uppbyggileg verkefni á Íslandi. Þegar bæjaryfirvöld leituðu leiða til að styðja Primacare verkefnið þá voru búnir til fjármunir á pappírunum með því að stækka byggingarreit sem Ístak hefur til ráðstöfunar á fyrirhuguðu byggingarsvæði á Tungumelum. Þarna var því miður farið óvarlega með því að fara innfyrir hverfisverndarmörk við Köldukvísl. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bæjaryfirvöld leyfa sér að gera þetta á kjörtímabilinu og verðum við að gæta þess að vinna ekki gegn langtímahagsmunum Mosfellsbæjar sem eru m.a. hrein og óspillt náttúra. ------------
Náttúran er meðal annars það sem gerir Mosfellsbæ að fýsilegum kosti fyrir heilsutengda ferðaþjónustu. Við þurfum hlúa að henni á öllum sviðum t.d. með viðeigandi umgengni við vatnsverndarsvæði svo takast megi að sjá íbúum fyrir nægilegu köldu og heitu vatni innan bæjarmarkanna. Stór hluti kalda vatnsins okkar kemur frá Reykjavík og er hyggilegt að Mosfellsbær verði sjálfum sér nógur um vatn í framtíðinni.Staðardagskrá 21 og gildi Mosfellsbæjar; jákvæðni, virðing, framsækni og umhyggja verða að fara saman með heildarhagsmunum en eru ekki einungis eitthvað til að hampa á tyllidögum!Undirritaður hefur hvatt til að einnig verði leitað leiða til að ýta úr vör atvinnuskapandi verkefnum í smærri stíl en að ofan greinir og styður heilshugar stofnun Heilsufélags Mosfellsbæjar. Jón Pálsson formaður Aftureldingar og Sævar Kristinsson rekstrarráðgjafi hjá Netspor hafa á undanförnum mánuðum unnið ötullega að því að skapa sameiginlega vettvang fyrir heilsutengda starfsemi í Mosfellsbæ. Þróunar- og ferðamálanefnd hefur ásamt starfsmönnum Mosfellsbæjar samþykkt drög að stofnsamþykkt Heilsufélagsins og er stefnt að því að það komist á laggirnar fljótlega. Ég hvet alla áhugasama atvinnurekendur og Mosfellinga sem eiga hagsmuna að gæta í ferða- eða heilsutengdri þjónustu að taka þátt í stofnun og mótun Heilsufélagsins.
Undirritaður hefur bent á það á fundi þróunar- og ferðamálanefndar að ekki sé þénugt að stofna sérstakt félag í hvert skipti sem fýsilegt verkefni rekur á fjörurnar. Ég vil að Mosfellsbær stofni almennt atvinnuþróunarfélag sem hafi það hlutverk að sameina krafta ólíkra hagsmunaaðila, vera þróunar- og nýsköpunarverkefnum hlíf og stökkpallur út í atvinnulífið en ekki eiginlegt rekstarfélag því Bæjarútgerð er úrelt rekstrarform.
------------------------------
Snorri Hreggviðsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.